Um íslenska æðardúninn

Íslenskur æðardúnn er verðmæt og fágæt náttúruafurð. Hann er eftirsótt fylling í dúnvörur fyrir þá kröfuhörðustu vegna einstakra eiginleika sinna; mýktar, léttleika og mikils einangrunargildis.

Æðardúnn er náttúrulegt undraefni sem á sér enga hliðstæðu. Eiginleikar æðardúns  eru einstakir því hann er þakinn örfínum og vart sjáanlegum mjúkum, króklaga þráðum sem valda samloðun hans. Hann er loftmikill sem veldur undraverðum léttleika, háu einangrunargildi og góðri öndun.

Árlega falla til um 3.000 kg af hreinsuðum íslenskum æðardúni. Hvert kíló samanstendur af dúni úr 60-80 hreiðrum. Framboð æðardúns er háð náttúrulegum skilyrðum ár hvert.

Í gildi eru lög um gæðamat á æðardúni, nr. 52/2005.  Samkvæmt þeim er óheimilt að dreifa æðardúni, hvort sem er innanlands eða erlendis, sem ekki hefur verið metinn og veginn af lögskipuðum dúnmatsmönnum eftir fullhreinsun. Áður en að dreifingu á innanlandsmarkaði eða til útflutnings kemur skal liggja fyrir að æðardúnn standist gæðamat dúnmatsmanna með vottorði þeirra þar að lútandi. Við vottun er hreinleiki hans, lykt, litur og samloðun metin og þyngd staðfest. Vottorð er fyllt út, stimplað og innsiglað við vöruna til staðfestingar á þyngd og gæðamati.

Hvergi í framleiðsluferlinu er nauðsynlegt að nota tilbúin efni af nokkru tagi, nema kaupandi óski sérstaklega eftir því að láta þvo dúninn. Það er ekki nauðsynlegt og er fremur sjaldgæft. Sé það gert eru notuð kemísk efni. Engu er blandað saman við dúinn. Því er um að ræða 100% lífrænt ræktaða náttúruafurð.

is_ISÍslenska
Scroll to Top