Æðarfuglinn byrjar að hópa sig undan ströndinni á vorin, alla jafna í byrjun maí. Um og upp úr miðjum maí byrjar hann að setjast upp og færa sig inn á landið. Þá byrjar fuglinn hreiðurgerð og kollur og æðarblikar para sig saman. Eftir að æðarkollan hefur verpt eggjum fer karlfuglinn á haf út, en æðarkollan situr á eggjunum. Hún þarf að bregða sér annað slagið út á sjó og skilja eggin eftir í hreiðrinu. Hún reitir af sér fjaðrir til að halda hlýju á eggjunum, bæði meðan hún liggur á hreiðrinu og eins þegar hún skilur eggin eftir.

Ótrúlegt einangrunargildi dúnsins veldur því að eggin haldast heit þótt kollan sé nokkuð lengi frá.
Æðardúnninn er tíndur jafnóðum allt sumarið. Þegar kollan liggur á þarf að nálgast hreiðrið varlega. Dúnninn er svo handtíndur, en þess er gætt að taka ekki allan dúninn af fuglinum. Fuglinn er mjög gæfur, en sumir einstaklingar eru skapstyggari en aðrir. Stundum hefur kollan reitt alltof mikinn dún í hreiðrið, svo hann er byrjaður að fjúka og þá þarf að tína vel úr hreiðrinu. Dúnninn sem er tekinn er grófhreinsaður jafnóðum. Eftir að ungarnir fara að skríða úr eggjum þarf að tína eggjaskurn úr dúninum.
Ungarnir byrja að skríða úr eggjum í byrjun júní.

Þegar mikið er af fugli gerast hlutirnir hratt. Hafa þarf hraðar hendur til að tína dún úr hreiðrum sem fuglar hafa yfirgefið, svo hann fjúki ekki eða rigni niður. Varpinu er mikið til lokið fyrri hluta júlí, þótt einstaka fuglar geti verið eftir allt fram til mánaðarmóta júlí/ágúst.

Grófhreinsun á dúninum, sem er mikil vinna, stendur stundum yfir fram á haust. Þá eru fjarlægjar leifar af grasi, mosa, eggjaskeljar, þari og fleiri gróf óhreinindi. Auk þess er dúnninn þurrkaður. Dúnninn er síðan sendur í fullhreinsun og fjarðratínslu.

Sérstakar vélar eru notaðar til að fullhreinsa dúninn. Dúnninn er hitaður upp í 100 °C til að eyða mögulegum sníkjudýrum sem kunna að leynast í honum. Að auki þarf að handtína allar fjaðrir úr dúninum, sem er seinleg vinna. Þegar fullhreinsun er lokið er dúnninn tilbúinn, annað hvort til sölu úr landi eða hann er notaður í sængur og aðra dúnframleiðslu.
Hvergi í framleiðsluferlinu er nauðsynlegt að nota tilbúin efni af nokkru tagi. Engu er blandað saman við dúinn. Því er um að ræða 100% lífrænt ræktaða náttúruafurð.

